Sýrland og stórveldin

12. febrúar, 2018 Þórarinn Hjartarson

Sýrland: Grímurnar falla og innrásarstríðið blasir við

Innrásareðli stríðsins í Sýrlandi verður æ augljósara. Það breytir þó engu fyrir RÚV sem hleypur fram á hlað og geltir að þeim sem sigað er á frá Washington.

1. Tyrkir hófu beina innrás í Sýrland 20. janúar eins og áður hefur verið um fjallað í Neistum.

2. Svonefnt „Fjölþjóðalið gegn ISIS“ undir forustu Bandaríkjanna gerði loftárásir á liðssveitir tengdar sýrlenska stjórnarhernum nærri bænum Deir Ezzor þann 7. febrúar og munu hafa drepið a.m.k. 100 hermenn.

3. Og nú 10. og 11. febrúar fréttist að Sýrlenski herinn hafi skotið niður Ísraelska herflugvél í sprengjuleiðangri yfir Sýrlensku svæði við Golanhæðir, þá fyrstau sem Sýrlandsher skýtur niður. Og Ísrael svarar harkalega með loftárásum á 12 skotmörk í Sýrlandi.

Tyrkir og síðan Fjölþjóðaliðið ráðast fram

Tyrkland gerir sína innrás til að koma á „öryggissvæði“ (safe havens) innan Sýrlands eins og þeir hafa lengi hótað að gera. Sú hugmynd hefur verið studd af Bandaríkjunum. Hins vegar er ljóst að núverandi innrás er sólóspil Tyrkja, í óþökk Bandaríkjanna enda beinist hún gegn herjum Kúrda, SDF, bandamanni USA á svæðinu sem orðið hefur þeim símikilvægari að undanförnu. Árásin var bein viðbrögð við yfirlýsingum Tillersons utanríkisráðherra um að koma upp 30 000 manna „landamæraher“ sunnan sýrlensku landamæranna, borinn uppi af Kúrdum. Innrás Trykja er sem sagt alvarleg mögnun stríðsins, en um leið er hún merki um sundrungu í liði árásaraðilanna gegn Sýrlandi.

Hvað þá um árás Bandaríkjanna (formlega „Fjölþjóðaliðið gegn ISIS“) á liðssveitir tengdar Sýrlandsher nálægt bænum Deir Ezzor, 7. Febrúar? Að sögn bandarískra embættismanna vor þær liðssveitir „líklega að reyna að ná olíulindunum í Khusham“ austan Efrats, í Deir-Ezzor sýslu. Það kemur æ betur fram í yfirlýsingum frá Washington að þar hafa menn ekki í hyggju að láta af hendi til Sýrlandsstjórnar hin olíuríku landsvæði austan Efrats þó að þau losni undan yfirráðum ISIS. „Þegar Mattis varnarmálaráðherra var spurður hvort Bandaríkjaher væri kannski að hnjóta inn í hin breiðari breiðari átök Sýrlandsstríðsins svaraði hann: „Nei, þetta er gert í sjálfsvörn.““

Baksvið árásarinnar við Deir Ezzor er að Bandaríkin hafa notað sína ólöglegu innrás í Sýrland til að koma sér upp herstöðvum í landinu. Nú segja Tyrknesk yfirvöld að þær herstöðvar séu 13 talsins. Að svo komnu hefur „Fjölþjóðaherinn gegn ISIS“ fyrst og fremst stundað lofthernað. En eftir að „uppreisnarherir“ íslamista hafa farið hratt halloka fyrir herjum Assads (sem fengið hafa aðstoð frá Rússum, Íran og Hizbolla) hafa CIA og Pentagon farið að styðja hinn kúrdneska SDF-her, sem helsta landher sinn á svæðinu, þótt bandamanninum Tyrklandi mislíki mjög. Talað er um að 2000-3000 bandarískir hernaðarsérfræðingar séu nú í Sýrlandi. Með aðstoð Kúrda og með því að stækka umráðasvæði þeirratil suðurs reyna nú Bandaríkin að taka sem yfirráðasvæði allt hið mikla landasvæði austan Efratfljóts, sem er um þriðjungur Sýrlands. Svæðin austan borganna Raqqa og Deir Ezzor eru t.d einna olíuríkustu svæði Sýrlands. Eftir árásina lýsti rússneska utanríkisráðuneytið yfir: „enn og aftur sýnir sig að hin ólöglega hernaðarlega nærvera Bandaríkjanna í Sýrlandi stefnir í reynd að því að yfirtaka efnahaagsauðlindir landsins en ekki að berjast gegn alþjóðlegu hryðjuverkasamtökunum ISIS”

Hin nýja taktík Bandaríkjanna er tekin upp vegna breyttrar stöðu í landinu: ISIS – og aðrir vígahópar íslamista sem Vestrið og Persaflóaríkin hafa þjálfað og vopnað – eru í raun upprætt af umræddu svæði og er á hverfanda hveli í landinu öllu. Þar með hvarf yfirlýstur tilgangur með hernaði „Alþjóðaliðsins gegn ISIS“ (sem samanstendur af USA með bandamönnum, fyrst og fremst í ESB-veldum og Persaflóaríkjum). Þá taka Bandaríkin og „Fjölþjóðaliðið“ í reynd upp nýja stefnu: vera um kyrrt til að tryggja og fyrirbyggja að ISIS geti risið upp aftur! Stefna Donalds Trumps í kosningabaráttunni var að hætta að steypa stjórnum í Miðausturlöndum, m.a. að Bandaríkin ættu að koma sér út úr Sýrlandi. Nú er blaðinu snúið gjörsamlega við. Tillerson utanríkisráðherra segir nú galvaskur: „Bandaríkjaher verður áfram í hinu stríðshrjáða Sýrlandi í fyrirsjáanlegri framtíð til að vinna gegn Íslamska ríkinu.“ Hann bætir því við alveg skýrt að bandarískur her verði í Sýrlandi þar til Assad er horfinn frá völdum: „Stöðugt, sameinað og sjálfstætt Sýrland útheimtir ný stjórnvöld eftir-Assad til að verða árángursrík.“ Valdaskiptastefnan er sem sagt óbreytt.

Bandaríkin og Fjölþjóðaliðið hafa merkilegt nokk skilgreint stríð sitt sem nokkurs konar sjálfsvarnarstríð gagnvart ISIS (hindra nýjan 11. September!) En þar sem þetta skálkaskjól er óðum að hverfa liggur ekki annað fyrir en að Bandaríkin og Fjölþjóðaliðið taki ofan grímuna og fari í opið stríð við stjórn Sýrlands.

Ísrael í stríðið

Nú sprettur fram einn helsti stuðningsmaður innrásarinnar, sem hefur þó til þessa látið fara lítið fyrir sér opinberlega, og gengur inn í stríðið, Ísrael: Netanyahu leggur áherslu á að tengja þessar síðustu árásir sínar við höfuðandstæðing sinn, Íran. Sýrland hefur til þessa ekki gefið Ísrael tilefni til stórfelldra aðgerða en nú eru bein átök við Ísrael hafin. Sú ákvörðun, og geta, Sýrlandshers að skjóta niður Ísraelska sprengiflugvél er líklega, og vonandi, merki um aukið sjálfstraust Sýrlandsstjórnar í stríðinu.

Ísland tekur þátt af sínum veika mætti

Á vefsíðu bandaríska utanríkisráðuneytisins er listi yfir aðildarlönd „Fjölþjóðaliðsins gegn ISIS“. Á þeim lista er Ísland. Ísland hefur raunar verið í liði „uppreisnarinnar“ í Sýrlandi nánast frá byrjun. Íslenska vinstri stjórnin viðurkenndi árið 2012 „Þjóðareiningu“ uppreisnarhópa í Sýrlandi – National Coalition – sem lögmætt stjórnvald Sýrlands, og stillti sér á bak við „uppreisnina“. Sem nú er augljóslega orðin að innrásarstríði.

Fréttaflutningur RÚV af þessu stríði er í samræmi við þessa innrásaraðild Íslands. RÚV rígheldur í hina opinberu mynd sem máluð er í af stóru bandarísku fréttastofunum. Samkvæmt því er Sýrlandsstríðið „uppreisn“ gegn „hrottalegum einræðisherra“ (sem sumir vinstri menn kalla jafnevel „byltingu“). Vandamálið er Assad. Um ofannefnda árás Bandaríkjahers nálægt Deir Ezzor sagði RÚV einfaldlega: „Bandarískir embættismenn segja að bandaríski flugherinn hafi komið Kúrdum til hjálpar þegar um 500 bandamenn sýrlenska stjórnarhersins gerðu tilraun til að hertaka svæði sem Kúrdar ráða við Efrat fljót. 100 árásarmenn hafi verið felldir.“

Og meðan innrásirnar ganga á Sýrlandi hver af annarri hafa helstu féttir RÚV af landinu (gjarnan dreift af „Hvítu hjálmunum“) verið um villimennsku Sýrlandshers gegn saklausum borgurum í Ghouta og Idlib-héraði. M.a. hefur RÚV hvað eftir annað fullyrt á nokkurs fyrirvara að Sýrlandsstjórn beiti þar efnavopnum. Þetta er haft eftir bandarískum fréttastöðvum sem vissulega fullyrða um „efnavopnaárásir“ Sýrlandshers – sem Tillerson hefur þó jafnan viðurkennt að sannanirnar vanti um. En slíkt vefst ekki fyrir RÚV. Fréttastofa RÚV er stríðsæsingamiðill af ómerkilgu sortinni.